Innlent

Geir: Búið að flauta til leiks

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, mælti fyrir frumvarpi fyrir hönd fjögurra flokka á Alþingi í dag um breytingar á kosningalögum.

Sjálfstæðismenn gagnrýndu frumvarpið og sagði Geir H. Haarde, formaður flokksins, að það væri venja að allir flokkar væru hafðir með í ráðum þegar kosningalögum væri breytt. Frumvarpið gerir meðal annars ráð fyrir persónukjöri.

Geir sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki mótfallinn því að auka möguleika almennings á að hafa áhrif á röðun frambjóðenda. ,,Leikurinn er hafinn og það er búið að flauta til leiks," sagði Geir og bætti við að allir hafi miðað sínar ráðstafanir út frá því.

Geir sagði að það væri með öllu óviðeigandi að bjóða upp á breytingar á kosningalöggjöfinni nokkrum vikum fyrir kosningar að óræddu máli á milli flokka og almennings. Þá minnti hann á tilmæli ÖSE og Evrópuráðsins um að ekki eigi að ráðast í stórar breytingar á kosningalöggjöfinni ári fyrir kosningar.

Lúðvík vísaði gagnrýni Geirs á bug og sagði að tilmælin ættu ekki við þar sem fyrirhugaðar breytingar væru ekki stórfelldar. Verið væri að gefa flokkunum færi á að auka aðkomu kjósenda við röðun á framboðslistum en það væri í höndum flokkanna hvort þeir bjóði upp á þann möguleika eða ekki. Lúðvík sagði að Sjálfstæðisflokkurinn gæti haldið áfram að raða upp á sína lista og að flokkurinn þyrfti ekki að breyta neinu.

Þá sagði Lúðvík Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið hafður með í ráðum þegar leitað var til hans. Flokkurinn hafi hinsvegar ekki viljað taka þátt í því.

Umræðum um frumvarpið verður framhaldið klukkan 18.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×