Innlent

Framboð annar ekki eftirspurn hjá framsókn

Sigmundur Davíð ásamt þremur þingmönnum Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð ásamt þremur þingmönnum Framsóknarflokksins.
Matthías Imsland, formaður kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að fjölmargir vilji taka sæti á framboðslistum flokksins í höfuðborginni. Þetta varð til þess að framsóknarmenn neyddust til að fresta fundi um seinustu helgi þar sem stilla átti upp framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Á kjördæmaþingi 14. febrúar var ákveðið að forvalsnefnd, sem kosin var á þinginu, myndi gera tillögu að framboðslistum flokksins í Reykjavík sem lagðar yrðu fyrir annað kjördæmaþing hálfum mánuði síðar. Því þingi var frestað.

,,Þinginu var frestað um viku vegna þess að við hreinlega gáfum okkur of lítinn tíma þegar þingið var ákveðið miðað við allan þann fjölda sem síðan vildi vera á lista," segir Matthías og bætir við að mikil stemmning sé meðal flokksmanna fyrir framboði.

Kjördæmaþingið verður haldið á Hilton Reykavík Nordica næst komandi laugardag. Þar mun skýrast hverjir skipa efstu sæti framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gefur kost á sér í Reykjavík norður. Þá hafa Einar Skúlason, framkvæmdastjóri þingflokks, og Hallur Magnússon, ráðgjafi, lýst yfir framboði í fyrsta sæti flokksins í Reykavíkur suður.

Í þingkosningunum 2007 fékk Framsóknarflokkurinn engan þingmann kjörinn í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×