Lífið

Freyja Haraldsdóttir fékk styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen

Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir.

Freyja Haraldsdóttir hlaut styrk að upphæð 350 þúsund krónur úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra í Höfða í síðustu viku.  Það var Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri sem afhenti stykinn við hátíðlega athöfn.

Til sjóðsins var stofnað af hjónunum Bentu og Valgarði Briem 29. desember 1985 þegar liðin voru 75 ár frá fæðingu Gunnars. Þetta er í tuttugasta og þriðja sinn sem veitt er úr sjóðnum og hafa styrkþegar bæði verið félagasamtök og einstaklingar.

Freyja Haraldsdóttir hefur þrátt fyrir fötlun látið drauma sína rætast og um leið opnað augu almennings fyrir því að það felist tækifæri í fötlun. Hún er 22ja ára að aldri og stundar nám í þroskaþjálfafræði við Kennaraháskóla Íslands ásamt því að starfa við fyrirlestra og fræðslu um líf fatlaðs fólks.

Í nóvember 2007 gaf hún út bókina Postulín ásamt Ölmu Guðmundsdóttur og fjallar bókin um líf Freyju og viðhorf. Með einstöku hugarfari og hjálp frá fjölskyldu og vinum tekur Freyja virkan þátt í daglegu lífi. Hún hefur heimsótt fyrirtæki, stofnanir og alla framhaldsskóla landsins og haldið fyrirlestra þar sem hún lýsir því hvernig það er að vera fötluð og hvernig samfélagið oft og tíðum bregst við fötluðum einstaklingum. Borgarstjóri sagði við afhendingu styrksins í Höfða að Freyja væri einstaklega vel að styrknum komin. Hún hefði hreyft við fjölda fólks með bókinni Postulíni og sýnt fram á dugnað og þor þrátt fyrir mótbyr.

Freyja sagðist afar þakklát, styrkurinn kæmi sér vel og hún myndi nýta hann til þess að halda áfram fræðslufyrirlestrum sínum sem hún segir mikilvægan þátt í að opna augu almennings fyrir málefnum fatlaðra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.