Innlent

Gunnar Birgisson: Sér ekki ástæðu til þess að segja af sér

„Ég veit ekki hvað er verið að saka mig um í þessu máli," segir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs í Síðdegisútvarpinu á RÚV eftir að neikvæð skýrsla Deloitte birtist í dag.

Endurkoðunarfyrirtækið sá margt að í viðskiptum Frjálsrar miðlunar við Kópavogsbæ en dóttir Gunnars er eigandi Frjálsrar miðlunar sem hagnaðist um 39 milljónir á viðskiptum við bæinn.

Að sögn Gunnars eru helstu aðfinnslurnar í skýrslunni bókhaldslegar eins og með vitlausa bókhaldslykla. Hann segir Það ekki óeðlilegt miðað við þá 60 þúsund reikninga og 80 þúsund millifærslur sem bærinn greiðir og framkvæmir á ári hverju.

„Ég er sagður tengjast þessu sem ég geri ekki. Ég tengist ekki Frjálsri miðlun að öðru leitinu til að dóttir mín er svo óheppin að vera eigandinn," segir Gunnar sem heldur því fram að hann hafi aldrei komið að þessum viðskiptum eða vitað um þau.

Varðandi afmælisritið sem aldrei var gefið út vísar Gunnar á afmælisnefnd bæjarins frá árinu 2005. Hún hafi tekið ákvörðun um að gefa aldrei út ritið sem kostaði bæjarbúa engu að síður tæpar þrjár milljónir.

Svo bætir Gunnar við og hafnar þar með alfarið að Frjáls miðlun hafi ekki unnið vinnuna sína: „Það vantar bara textann. En það eru til myndir og umbrot og litagreining. Það var síðan hætt við að dreifa því."

Gunnar segir það alfari á ábyrgð afmælisnefndar að því var ekki dreift.

Hann segir engin hagsmunatengsl að finna í skýrslunni. Þau bókhaldsmistök sem hafi verið bent á, verði löguð og þess gætt að þau endurtaki sig ekki.

Farið verði yfir verkferla að sögn Gunnars og bendir á að samkvæmt reglum bæjarins þá þurfi stjóri viðkomandi sviðs og deildarstjóri að kvitta undir reikninga. Það sé ekki nema reikningar fari yfir fimm milljónir sem hann kvitti undir þá.

Spurður hvort hann hyggist segja af sér svarar Gunnar: „Ég veit ekki hversvegna ég ætti að gera það."

Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, Guðríður Arnardóttir, vill að Gunnar Birgisson segi af sér en ummælin lét hún einnig falla í Síðdegisútvarpinu á RÚV.

Hún segir skýrslu Deloitte áfellisdómur.

Hún segir að meirihlutinn þurfi að takast á við þetta mál og hún geti ekki sagt til um hvort það sé titringur þar á bæ.

„Við munum náttúrulega skoða þetta mál áfram," segir Guðríður.


Tengdar fréttir

Fá ekki upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag að mikil þrautarganga hefði verið að fá aðila á fundi viðskiptanefndar til þess að upplýsa um stöðu mála. Hann sagði meðal annars að í morgun hefðu aðilar á vegum Fjármálaeftirlitsins sagt á fundi að ekki væri ein einasta leið að upplýsa háttvirta þingmenn um hver staðan væri varðandi gömlu bankanna.

Gunnar Birgisson hugsanlega brotlegur við lög

Úttekt á viðskiptum Frjálsrar miðlunar við Kópavogsbæ er lokið. Skýrsluna vann endurskoðunarfyrirtækið Deloitte. Minnihluti Kópavogsbæjar hefur sakað Gunnar Birgisson um óeðlileg viðskipti við fyrirtækið sem er í eigu dóttur hans og eiginmanns hennar.

„Hvernig stendur á því að svona er gert?“

Ómar Stefánsson formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi segist allt annað en ánægður með niðrustöðu skýrslu Deloitte á úttektum á viðskiptum Frjálsrar miðlunar við bæjarfélagið. Hann segir niðurstöðuna koma sér verulega á óvart. Hann hefur boðað til fulltrúaráðsfundar hjá Framsóknarflokknum sem allra fyrst.

Borgaði dótturinni 11 milljónir í önnur verkefni

Í skýrslu frá Deloitte kemur fram að Kópavogsbær greiddi Frjálsri miðlun, sem er í eigu dóttur Gunnars Birgisson, bæjarstjóra Kópavogs, að bærinn greiddi ellefu milljónir króna í annan kostnað sem er ekki frekar útskýrður. Það er stærsta greiðslan. Alls greiddi bærinn Frjálsri Miðlun rétt rúmar 39 milljónir króna yfir fimm ára tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×