Erlent

WHO íhugar að lýsa yfir næstefsta viðbúnaðarstigi

Fulltrúar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, segjast skrefi nær því að lýsa yfir næst efsta viðbúnaðarstigi vegna svínaflensunnar. Það þýðir að ekkert lát er á útbreiðslu sjúkdómsins. Íslensk kona í Mexíkó, þar sem sjúkdómurinn greindist fyrst, segir viðbúnað í landinu mikinn en hún sé ekki á leið heim í bráð.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin er nú á viðbúnaðarstigi fjögur á sex stiga kvarða. Fari stofnunin á næst efsta stig telst það yfirlýsing um að ekkert lát virðist ætla að verða á svínaflensusmiti og til marks um að fólk utan Mexíkó hafi smitast án beinna tengsla við landið. Talsmaður stofnunarinnar segir þetta til skoðunar og stórt skref verði stigið þurfi að lýsa yfir fimmta viðbúnaðarstigi en svo hátt var ekki farið þegar fuglaflensa smitaðist milli landa fyrir nokkrum árum.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin segir hundrað og fjórtán tilfelli svínaflensu staðfest í heiminum, þar af tuttugu og sex í Mexíkó sem er töluvert færri en þau tvö þúsund og fimm hundruð tilfelli sem heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó telja greind. Einnig segir stofnunin átta dauðsföll staðfest en ekki hundrað og sextíu. Sjö í Mexíkó og eitt í Bandaríkjunum, en tæplega tveggja ára barn sem kom til Texas með foreldrum sínum frá Mexíkó veiktist og lést.

Hólmfríður Magnúsdóttir, sem búsett er í Mexíkó, segir enn mikinn viðbúnað í landinu. Hún hefur ekki mætt í vinnu síðan á mánudaginn.

Hólmfríður segir fjölmarga með grímur og alla skóla lokaða. Hún á fjóra mánuði eftir í Mexíkó og hefur ekki hugleitt að koma fyrr heim.


Tengdar fréttir

Bandarískir svínabændur óhressir með svínaflensu

Tom Vilsack, landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna, hefur bænheyrt þarlenda svínabændur og farið þess á leit við stjórnvöld að nafni svínaflensunnar alræmdu verði breytt í H1N1-veiran í stað þess að kenna hana við svín.

Barnið sem lést í Texas var frá Mexíkó

Nú er komið í ljós að barnið sem lést í Texas ríki af völdum svínaflensu var frá Mexíkó en foreldrar þess höfðu ferðast með það yfir landamærin til þess að leita læknisaðstoðar. Fyrr í dag var greint frá því að um væri að ræða fyrsta dauðsfallið í Bandaríkjunum af völdum svínaflensu. Barnið var tveggja ára gamalt.

Bretar panta 30 milljónir gríma

Breska heilbrigðisráðuneytið hefur pantað 30 milljónir gríma til að hylja vit fólks og verja það þannig fyrir svínaflensunni sem geisar í heiminum. Sérfræðingar hafa þó bent á að grímurnar veiti litla sem enga vörn gegn veirunni sem veldur svínaflensu.

Öllum svínum í Egyptalandi fargað

Heilbrigðisyfirvöld í Egyptalandi hafa fyrirskipað að öllum svínum í landinu skuli fargað vegna svínaflensunnar sem vekur ugg víða um heim. Í yfirlýsingu frá egypska heilbrigðisráðherrans segir að þetta sé gert í varúðarskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×