Innlent

Gjaldeyrisbrask gert refsivert

Talið er að nokkuð sé um að menn reyni að hagnast á því að kaupa gjaldeyri á Íslandi og selja hann fyrir krónur í útlöndum.
Talið er að nokkuð sé um að menn reyni að hagnast á því að kaupa gjaldeyri á Íslandi og selja hann fyrir krónur í útlöndum.

Ólögleg viðskipti með gjaldeyri verða refsiverð innan skamms, samkvæmt frumvarpi sem viðskiptanefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar. Þegar gjaldeyrislögum var breytt eftir bankahrunið síðasta haust fórst fyrir að gera gjaldeyrisbrask refsivert, og er talið að nokkuð hafi verið um að óprúttnir aðilar hafi nýtt sér það.

Í frumvarpinu er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á þá sem stunda gjaldeyrisviðskipti án þess að hafa til þess sérstaka heimild frá Seðlabanka Íslands.

Þá geti Fjármálaeftirlitið jafnframt vísað meiri háttar brotum til lögreglu og heimilt verði að beita sektum eða fangelsi allt að tveimur árum fyrir brot gegn lögunum.

Þá er í frumvarpinu lagt til að heimildir Fjármálaeftirlitsins til rannsóknar á brotum gegn gjaldeyrislögum verði styrktar. Því verði gert heimilt að krefjast upplýsinga og gagna, kalla menn til skýrslugjafar, krefjast kyrrsetningar eigna og þess að leyfislausri starfsemi verði hætt.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir að breytingarnar sem kveðið er á um í frumvarpinu muni ekki koma til með að hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.


Tengdar fréttir

Þarf meira til að lögleiða fíkniefni

Dómsmálaráðherra segir það ekki næga ástæðu til að endurskoða stefnu ríkisins gagnvart kannabisefnum að landlæknir og prófessor í afbrotafræði hafi varað við „fíkniefnastríðinu“, og virðist telja núverandi stefnu komna í ákveðna blindgötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×