Innlent

Þvert yfir landið á fjórhjóli

Hjólið sem Jón Gunnar hyggst ferðast á yfir landið er sérútbúið og hentar til útivistar. Hann er hér við hliðina á hjólinu, sem hann var á í fjögurra daga veiðiferð fyrir skömmu. fréttablaðið/stefán
Hjólið sem Jón Gunnar hyggst ferðast á yfir landið er sérútbúið og hentar til útivistar. Hann er hér við hliðina á hjólinu, sem hann var á í fjögurra daga veiðiferð fyrir skömmu. fréttablaðið/stefán

Jón Gunnar Benjamínsson ætlar að ferðast þvert yfir landið á fjórhjóli á næstunni. Jón Gunnar er lamaður fyrir neðan mitti og vill vekja athygli á því að fatlað fólk í hjólastólum hefur sama áhuga á ferðalögum og útivist og aðrir. Þá vill hann kanna aðgengi fatlaðra á ferðamannastöðum á hálendinu. Einnig verður áheitum safnað í tengslum við leiðangurinn til þess að safna fé til að bæta aðgengi fatlaðra í Landmannalaugum.

Jón segir að hugmyndin hafi kviknað þegar hann fékk póst frá 66° Norður þar sem leiðangurs­styrkur var auglýstur. „Þá datt mér í hug að það væri kannski býsna góð hugmynd að geta samofið útivistaráhugann og söfnun fyrir góðu málefni. Það gæti blásið einhverjum sem er í svipaðri aðstöðu byr í brjóst, og sýnt að ýmislegt er hægt þótt maður sé í þessari leiðin­legu aðstöðu," segir hann.

Jón mun leggja af stað á morgun frá Hverarönd í Mývatnssveit. Hann er nýkominn úr veiðiferð í Laxá þar í sveit þar sem hann fór um allt á hjólinu. Ferðin mun taka fimm daga og henni lýkur í Reykjavík á sunnudag. Með Jóni í för verður Sigfús Hreiðarsson, sem ætlar að aka sexhjóli. Ingólfur Stefáns­son mun fylgja þeim á jeppa og Halldór Kolbeins kvikmyndagerðarmaður mun taka leiðangurinn upp. Hægt verður að fylgjast með leiðangrinum á heimasíðunni acrossiceland.is og er söfnunarnúmer hans 901 5001.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×