Innlent

Neytendasamtökin gagnrýna siðlausa markaðssetningu bankanna

Jóhannes Gunnarsson er formaður Neytendasamtakanna. Mynd/ GVA.
Jóhannes Gunnarsson er formaður Neytendasamtakanna. Mynd/ GVA.
Neytendasamtökin gagnrýna harðlega siðlausa markaðssetningu bankanna í góðærinu þar sem námsmenn voru jafnvel hvattir til að kaupa gallabuxur upp á krít. Þau segja umburðarlyndið sem Íslendingar sýndu bönkunum óskiljanlegt.

Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu Neytendasamtakanna í dag. Þar er farið yfir markaðssetningu bankanna í góðærinu. Rifjað er upp að Búnaðarbankinn hafi markað upphafið að ágengri markaðssetningu bankanna til námsmanna með auglýsingaherferð árið 2003. Þá hafi birst auglýsingin Trommusett á yfirdrætti þar sem sjá mátti framhaldsskólanema sem notaði yfirdrátt til að kaupa trommusett. Fleiri slíkar auglýsingar hafi birst þar sem glaðbeitt ungmenni höfðu keypt tölvu með tölvukaupaláni, gallabuxur á kreditkortið og aðrar neysluvörur, með þeim skilaboðum að eðlilegt væri að námsmenn tækju lán fyrir neysluvörum, útskriftarferðum, bílum og námi með tilheyrandi kostnaði í stað þess að bíða þar til efni og aðstæður leyfðu kaupin. Þá gagnrýna Neytendasamtökin skólayfirvöld fyrir að hafa hleypt bönkum og fjarskiptafyrirtækjum óáreittum inn í framhaldsskóla og fjölmiðla fyrir jákvæðan fréttaflutning úr viðskiptalífinu þar sem varla hafi liðið sá fréttatími að ekki væri sagt frá landvinningum íslenskra kauphéðna erlendis.

Þá er rifjað upp að Neytendasamtökin hafi hvatt Kaupþing til að hætta sölumennsku víða á opinberum stöðum, eftir að samtökunum bárust kvartanir um að sölumenn bankans hefðu verið á vappi í kirkjugörðum til að fá ungmenni í unglingavinnunni til að skrifa undir flókna og bindandi samninga um séreignalífeyrissparnað. Nú er öldin önnur, að mati Neytendasamtakanna, en dapurlegt sé að þjóðargjaldþrot hafi þurft til að breyta áherslum í íslensku þjóðlífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×