Innlent

Niðurskurðarhnífnum ekki beitt af nægjanlegri hörku

Mynd/Anton Brink

Aðgerðir sem gripið var til um mitt ár til að hemja kostnað og bæta afkomu ríkissjóðs hafa ekki skilað tilætluðum árangri, að mati Ríkisendur­skoðunar.

Heildargjöld ríkisins á árinu eru nú áætluð 33 milljörðum króna hærri en fjárlög ársins kváðu á um. Þau verða 589 milljarðar í stað 556 milljarða í fjárlögum. Munur­inn skýrist til jafns af hærri vaxtagjöldum og hærri gjöldum ráðuneyta, að sögn Ríkisendurskoðunar.

Skýrsla stofnunarinnar um framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði ársins kom út í gær. Í henni segir að almennt hafi ekki verið farið að tilmælum Ríkisendurskoðunar frá því um mitt ár um tafarlaus viðbrögð til að bæta stöðu stofnana sem glíma við rekstrarvanda. Þó eru þrjár stofnanir nefndar þar sem rekstur hefur verið tekinn föstum tökum: Háskólinn á Akureyri, Námsmatsstofnun og Raunvísindastofnun HÍ. Ástandið er hins vegar hvað verst hjá Landspítalanum, Landbúnaðarháskólanum og Hólaskóla.

Í skýrslunni segir að ráðuneytin hafi gefið undirstofnunum sínum mismunandi skilaboð um hvernig farið skuli með ónýttar fjárheimildir frá síðasta ári. Sum ráðuneyti hafi sett skorður við nýtingu slíkra heimilda en önnur leyft að þær væru fluttar milli ára. Ríkisendurskoðun gagnrýnir að stjórnvöld hafi ekki samræmt ákvarðanir í þessu efni.

Þá gagnrýnir stofnunin að hvorki sé fjallað um skuldbindingar vegna Icesave í fjárlögum né fjáraukalögum.

bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×