Erlent

Spenna í Kóreu

Kim Jong Il, leiðtogi Norður-Kóreu
Kim Jong Il, leiðtogi Norður-Kóreu

Tvö suður-kóresk flugfélög hafa breytt ferðum flugvéla sinna svo þær þurfi ekki að fljúga í lofthelgi Norður-Kóreu. Það er gert vegna yfirlýsinga Norður-Kóreumanna um að þeir gætu ekki tryggt öryggi farþegaflugvéla frá Suður-Kóreu og hótuðu að skjóta þær niður.

Samskipti milli Norður- og Suður-Kóreu hafa versnað síðustu vikur og mánuði. Samstarfssamningum hefur verið sagt upp um leið og sexveldaviðræðurnar um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumanna hafa legið niðri. Hótanir ráðamanna í Pyongyang koma eftir að þeir vörðu ráðamenn í Seúl við því að heræfingar Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna í næstu viku gætu orðið til að kveikja ófriðarbál.

Norður-Kóreumenn hafa lengi sagt að slíkar æfingar séu ögrun. Um þrjátíu farþegavélar frá Suður-Kóreu fljúga um lofthelgi Norður-Kóreu á hverjum degi. Ráðamenn í Seúl hafa þegar krafist þess að Norður-Kóreumenn dragi hótun sína til baka.

Flugfélögin Korean Air og Asiana Airlines hafa breytt tvö hundruð flugferðum á sínum vegum næsta hálfa mánuðinn og er talið að það hafi kostað um hálfa milljón bandaríkjadala. Heræfingar Suður-Kóreumanna með bandarísku herliði hefjast á mánudaginn og standa í tólf daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×