Innlent

Arkitektar í hópum á gæðafundi

Góð mæting og lífleg skoðanaskipti voru á fundi um gæði byggðar sem haldinn var í Hafnarhúsinu í morgun. Menn tóku eftir að þarna voru m.a. atvinnulausir arkitektar í hópum enda er byggingarstarfsemi í borginni í mikilli ládeyðu þessa stundina.

Í tilkynningu segir að fundurinn var hluti af fundarröð um endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur með fagfólki, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum.

Formaður Skipulagsráðs, Júlíus Vífill Ingvarsson, ræddi í upphafi fundar almennt um áherslur í endurskoðun aðalskipulagsins 2010-2030. Að því loknu fræddi Haraldur Sigurðsson hjá Skipulags-og byggingarsviði fundargesti nánar um hina ýmsu þætti endurskoðunarinnar, m.a þrjár tillögur að þéttingu byggðar.

Þá tók Ólöf Örvarsdóttir skipulagsstjóri við og kynnti vinnu við stefnu um gæði byggðar. Halldóra Vifilsdóttir arkitekt flutti að því loknu erindi um drög að gæðastefnu um manngert umhverfi. Fyrirlestrunum lauk svo með því að Ágústa Sveinbjörnsdóttir, arkitekt á Skipulags-og byggingarsviði, fór yfir vinnu við mótun stefnu um hæðir húsa í tengslum við endurskoðun aðalskipulagsins 2010-2030.

Að fyrirlestrum loknum spunnust líflegar umræður og skoðanaskipti, m.a um aðkomu arkitekta að skipulagsgerð, hugmyndasamkeppnir og gæðaferla í deiliskipulagsvinnu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×