Innlent

Klínísk sjónarmið ráða því hverjir fá Tysabri lyfið

Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segir læknisfræðileg sjónarmið og niðurstöður rannsókna ráða því hvaða sjúklingar fái tysabri meðferð á spítalnum. Ein aðalástæðan fyrir töf eru dauðsföll eftir gjöf lyfsins erlendis.

Fjallað hefur verið um málið í fréttum Stöðvar 2 að undanförnu. Lyfið er nýtt og hefur hamlandi áhrif á MS sjúkdóminn. Tveir MS sjúklingar á Akureyri kenndu fyrir helgi kreppu og niðurskurði um að þau fá ekki lyfið. Þau sögðu að lífi þeirra væri ekki sýnd virðing. Þá hélt Ásta Möller, alþingismaður og hjúkrunarfræðingur, því fram um helgina að jafnvel menntun hafi ráðið því hverjir fái lyfið og hverjir ekki.

Dauðsföll erlendis gefa tilefni til varfærni

Björn segir í tilkynningu að Landspítali hafi staðið afar faglega að Tysabri meðferð og að nú hafi hlutfallslega fleiri sjúklingar á Íslandi fengið lyfið en annars staðar á Norðurlöndum sé miðað við höfðatölu.

,,Árið 2008 stóð til að gefa 50 MS sjúklingum lyfið en í dag hafa 45 fengið þessa meðferð. Ein aðalástæða þess að töf hefur orðið á gjöf voru dauðsföll eftir gjöf tysabri erlendis sem gáfu tilefni til aukinnar varfærni. Af 45 sjúklingum sem hafa fengið lyfið hérlendis hafa 3 þurft að hætta meðferð vegna ofnæmisviðbragða."

Björn segir að ýmsir hafi hvatt til meiri tysabri gjafar þrátt fyrir að erlend reynsla sýni að aukaverkanir geti verið lífshættulegar. Ef illa fer sé ábyrgðin hins vegar Landspítala. ,,Það er því nauðsynlegt fyrir öryggi sjúklinga að meðferð sem þessari sé stjórnað af færustu sérfræðingum. Á hinn bóginn er afar skiljanlegt að þeir sem þjást af MS reki á eftir meðferð."

Svarar orðum Ástu Möller

Um gagnrýni Ástu Möller segir Björn að menntunarstig sjúklinga hafi ekki áhrif á ákvörðun um val á fólki í meðferð. ,,Það sem stjórnar því hverjir fá þessa meðferð er klínískt mat sérfræðinga, auk niðurstaðna úr ákveðnum rannsóknum á sjúklingum. Til þess að fá þessa meðferð þarf að uppfylla atriði sem tilgreind eru nákvæmlega í klínískum leiðbeiningum spítalans og byggjast á gagnreyndum rannsóknum."

- MS sjúklingar sem fá lyfið Tysabri veigra sér við að segja frá því, 22. mars.

- Menntun ræður hver fær MS lyfið Tysabri, 21. mars.

- Vanvirðing fyrir lífinu, 20. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×