Erlent

Rannsókn hafin á flugslysinu í Montana

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. MYND/AP
Sautján manns flest börn fórust með einshreyfils flugvél sem hrapaði í lendingu í Montana í Bandaríkjunum í dag. Gott skyggni var og hæg gola þegar slysið varð. Rannsókn er hafin á hvað olli slysinu. Þá fórust tveir flugmenn fragtflugvélar sem varð alelda í lendingu á Narita flugvelli í Tokyo.

Vélin sem fórst í Bandaríkjunum var stór einshreyfils skrúfuþota af gerðinni Pilatus PC-12. Hún var að því er talið er að flytja börnin frá Kaliforníu á skíðasvæði í Montana.

Samkvæmt fréttum á slysstað voru alls sautján um borð í vélinni. Það vekur athygli þar sem þessar vélar hafa aðeins sæti fyrir níu farþega og einn eða tvo flugmenn.

Flugvélin var að koma inn til lendingar í Butte í Montana þegar hún allt í einu steyptist lóðrétt til jarðar og kom niður í kirkjugarði um 150 meta frá enda flugbrautarinnar.

Vélin sprakk í tætlur og mikil eldsúla reis til himins. Starfsmaður á flugvellinum í Kaliforníu þaðan sem vélin fór segir að börnin hafi verið á aldrinum 6-10 ára.

Gott skyggni var og hæg gola þegar slysið varð.

Í Tokyo voru hinsvegar sviptivindar þegar þriggja hreyfla breiðþota af gerðinni MD-11 brotlenti á Narita flugvelli. Þetta var fragtvél og aðeins tveir flugmenn um borð. Á myndum af slysinu virðist vélin lenda mjög harkalega á aðal-hjólabúnaðinum.

Hún hendist hátt á loft aftur og skellur síðan niður á nefið af miklum þunga. Hún veltist til vinstri og vinstri vængurinn brotnar af. Vélin þeytist svo í miklu eldhafi niðureftir brautinni þartil hún staðnæmist rétt til hliðar við hana. Báðir flugmennirnir létu lífið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×