Innlent

Stofnun embættis héraðssaksóknara frestað

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir. Mynd/Anton Brink
Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi sem felur í sér frestun á stofnun embættis héraðssaksóknara til ársins 2011. Til stóð að stofna embættið á þessu ári en nú á að fresta því vegna sparnaðar.

Fram kom í máli Rögnu að ekki væri lagt til að ákvæði um héraðssaksóknara í lögum um meðferð sakmála verði fellt úr gildi. Markmiðið með því hafi verið að auka réttaröryggi með því að bæta við stjórnsýslustigi við ákæruvaldið. Embættinu verði komið á fót síðar.

„Miðað við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu í dag þá er það einfaldlega þannig að menn verða að reyna að spara á öllum sviðum samfélagsins. Bæði þessu sviði sem og öðrum," sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður allsherjarnefndar.

Í ræðu sinni snupraði Steinunn þingmenn stjórnandstöðunnar og sagði ekki þýða fyrir þá að koma upp í ræðustól og segja að ekki megi hækka skatta og koma um leið ekki með neinar tillögur á móti.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók orð Steinunnar til sín og svaraði henni fullum hálsi og sagði Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn hafa nægar tillögur. „Það er frekar ríkisstjórnin sem vantar tillögur sem þarf að grípa til þeirra eldgömlu vinnubragða á krepputímum að grípa til skattahækkana," sagði þingmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×