Erlent

Cromwell Crown er versta hótel Bretlands

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Svona lítur versta hótel Bretlands út.
Svona lítur versta hótel Bretlands út. MYND/Telegraph

Það er sennilega frekar vafasamur heiður að lenda á lista Trip Advisor yfir tíu verstu hótel Bretlands og sennilega er það heldur ekki spennandi hlutskipti fyrir London að sjö af þessum 10 eru einmitt staðsett í miðborginni þar.

Gestir Trip Advisor voru beðnir að gefa ýmsum þáttum breskra hótela eina til fimm stjörnur eftir reynslu sinni. Verstu hótelin reyndust svo einfaldlega þau sem hlutu eina stjörnu fyrir flesta þættina og fimm fyrir fæsta. Cromwell Crown-hótelið afrekaði að tróna á toppi, eða réttara sagt botni, þess lista sem þannig varð til.

Á heimasíðu hótelsins er tekið fram að gestum hvaðanæva muni líða þar eins og á heimili sínu. Þessu virðast ekki allir sammála. Af 102 sem gáfu hótelinu einkunn gaf 81 því aðeins eina eða tvær stjörnur. Einn gestanna tók fram að hann hefði fundið ælupoll í herberginu sínu og nefndi sérstaklega að dvölin hefði verið mesta hörmung sem hann hefði reynt.

Hótelstjóri Cromwell Crown vísar þessu alfarið á bug og bendir á að herbergisþernurnar leggi sig allar fram við þrifin. Cromwell sé ódýrt hótel og fólk fái nákvæmlega það sem það greiðir fyrir. Auk þess tók hann fram að verið væri að færa hótelið upp í fjögurra stjörnu flokkinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×