Enski boltinn

Gazza nær dáinn í þrígang

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gazza má þakka fyrir að vera á lífi.
Gazza má þakka fyrir að vera á lífi. Nordic Photos/Getty Images

Paul Gascoigne hefur greint Sky frá því að hjarta hans hafi hætt að slá í þrígang þegar hann var í meðferð. Sögusagnir um að hann hafi verið nálægt því að deyja áttu því svo sannarlega við rök að styðjast.

„Hjartað brást mér nokkrum sinnum," sagði Gazza og bætti við að faðir hans hefði brotnað niður og þurft á aðstoð að halda þar sem hann hefði haft miklar áhyggjur af heilsu sonar síns.

Gazza hefur átt ansi skrautlega ævi og blöðin fjölluðu mikið um það á sínum tíma þegar hann beitti fyrrum konu sína ofbeldi.

„Þegar maður situr á veitingastað og einhver kallar móður manns illum nöfnum að ástæðulausu þá verður maður reiður. Ég tók vissulega í hendina á henni og setti höfuðið á mér á höfuð hennar. Ég skallaði hana samt ekki en ég kastaði henni í gólfið. Mér ofbýður í dag hvernig ég kom fram," sagði Gazza í þessu opinskáa viðtali við Sky.

„Ég fór í meðferð. Sat þar með 15-20 konum og sagði þeim nákvæmlega hvað ég hefði gert. Ég fékk nokkur högg frá konunum fyrir þetta en ég tók við höggunum. Ég datt svo bara í það og reyndi að rúlla í gegnum þetta skeið," sagði Gazza.

Þessi gamli knattspyrnusnillingur hefur háð marga rimmuna við Bakkus í gegnum árin og hann viðurkennir að fyrir aðeins fjórum mánuðum hafi hann verið að drekka 30 sterka bjóra á dag.

„Ég ræð við þetta núna. Eina sem ég þarf að gera er að muna eftir síðasta bjórnum og ef ég man það langar mig ekki í annan," sagði Gazza sem reyndi einnig að svipta sig lífi.

„Sjálfvígstilraunin átti sér stað í baðkerinu. Menn segja að það sé þægileg leið út. Að taka nokkrar svefntöflur, fara í heitt bað, skella í sig nokkrum drykkjum og bara detta út.

Ég var búinn að fá nóg af öllu á þessum tíma. Ég hringdi í systir mína og hún hefur líklega fattað hvað væri í gangi. Ég man að ég var alveg að detta út þegar svona sex lögregluþjónur ruddust inn og drógu mig úr baðinu," sagði Gazza.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×