Innlent

Óttast skert öryggi á vellinum

Jón Viðar Matthíasson Slökkviliðsstjóri hefur beðið Brunamálastofnun um að krefja Flugstoðir skýringa á því hvernig brunaöryggi verði háttað á Reykjavíkurflugvelli í framtíðinni.
Fréttablaðið/valli
Jón Viðar Matthíasson Slökkviliðsstjóri hefur beðið Brunamálastofnun um að krefja Flugstoðir skýringa á því hvernig brunaöryggi verði háttað á Reykjavíkurflugvelli í framtíðinni. Fréttablaðið/valli

Slökkviliðsstjóri hefur áhyggjur af því að á Reykjavíkurflugvöll verði ekki ráðnir menn með lögboðna menntun til að sinna brunavörnum.

Fjórir til fimm menn hafa verið á flugvellinum á vegum slökkviliðsins síðustu ár. Flugstoðir ohf. hafa hins vegar sagt upp samningnum við slökkviliðið og munu ætla að búa til sinn eigin viðbragðshóp í staðinn.

„Við höfum ekki fengið á hreint hvernig þeir ætla að útfæra þetta,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.

Fyrir utan margþætta menntunina þurfi einnig að senda menn í reglulegar læknisskoðanir, þrekpróf og þess háttar.

„Það er ansi dýrt að reka slökkvilið,“ segir Jón Viðar. Það gæti orðið jafn dýrt fyrir Flugstoðir og það er fyrir slökkviliðið að halda úti fullnægjandi viðbúnaði.

„Við höfum því skrifað bréf til Brunamálastofnunar, sem er eftirlitsaðili með slökkviliðum. Við óskum eftir því að hún kalli eftir skýringum frá Flugstoðum um hvernig þetta verður útfært,“ segir hann.

Jón Viðar segir að „ákveðinn uggur“ sé í honum þegar verið sé að riðla núverandi góðu fyrirkomulagi. Vel geti verið að Flugstoðir lumi á einhverri lausn: „En ég er frekar smeykur um að hún sé ekki í kortunum.“ - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×