Innlent

Prófkjör Samfylkingarinnar í Kraganum er í uppnámi

Svo gæti farið að röð frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi breytist, ef tæplega 150 atkvæði sem lýst voru ógild verða talin með, eins og krafa er uppi um. Fjöldi manns sem taldi sig vera í flokknum reyndist ekki vera á kjörskrá.

Árni Páll Árnason alþingismaður hlaut fyrsta sætið í prófkjörinu sem lauk í gær og á eftir honum komu Katrín Júlíusdóttir alþingismaður, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra. Flokkurinn hefur fjóra þingmenn í kjördæminu nú, en í fimmta sæti varð Magnús Orri Schram. Hundrað fjörtíu og sex manns sem komu á kjörstað í gær, reyndust ekki vera skráðir í flokkinn, en kusu samt og reyndu þar með að kæra sig inn á kjörskrá.

Helgi Pétursson formaður kjörstjórnar segir að fólki hafi verið flett upp í kjörskránni og ef það hafi ekki reynst vera á skrá hafi málið ekki náð lengra. Hann sagðist telja að fimm til átta atkvæði af þeim tæplega 150 sem svona háttaði um hafi verið úrskurðuð gild.

Óánægjan er ekki hvað síst meðal stuðningsmanna Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra í Hafnarfirði, en einungis munaði 57 atkvæðum á milli hans og Árna Páls Árnasonar í fyrsta sætið í kjördæminu.

Helgi segir að mönnum hafi þótt þetta vera sérkennilegt. Öll þessi atkvæði hafi komið inn seinnipartinn í gær.

Áhrifafólk í flokknum þekkti marga þeirra sem fundust ekki á kjörskrá þegar þeir komu til að kjósa. Helena Mjöll Jóhannsdóttir er í kjördæmisráði flokksins og varaformaður hans í Hafnarfirði.

Helena Mjöll segir að fólk hafi komið fullvíst um að það væri í flokknum. Hún viti að margt af því sé í flokknum. Hún hafi bæði þekkt mörg andlit og nöfn fólks sem sæki fundi í flokknum. Þetta fólk hafi ekki reynst vera á skrá.

,,Þannig að ég held að það sé alveg ljóst að við verðum að rýna betur í þetta og býst við að það verði gert," segir Helana Mjöll. En það sé ekki í hennar verkahring að ákveða það. Hún sé sannfærð um að það sé í verkahring kjördæmaráðsins að skoða málið betur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×