Innlent

Erilsöm nótt - þrír handteknir í samkvæmi í Árbænum

Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og gistu alls tíu manns fangageymslur. Átök brutust út í samkvæmi í heimahúsi í Vallarási í Árbæjarhverfi eftir miðnætti. Karlmaður var fluttur á slysadeild mikið slasaður á handlegg eftir að hann kýldi í gegnum rúðu. Þrír gestir úr samkvæminu gistu fangageymslur í nótt.

Rétt eftir klukkan hálf tvö í nótt gerði maður vopnaður hamri tilraun til að ræna verslun 10-11 við Bústaðaveg. Honum mistókst ætlunarverk sitt og eftir að hafa hótað starfsfólki verslunarinnar hvarf maðurinn út í nóttina.

Klukkan tvö var ráðist á konu á Óðinsgötu og hrifsað af henni veski. Við það féll konan í götuna en hún mun ekki vera slösuð. Ræninginn komst undan með veskið en samkvæmt lögreglu var ránsfengurinn heldur rýr.

Þá stöðvaði lögreglan för fjögurra ökumanna sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×