Enski boltinn

Eitt mark nægði Chelsea til að komast í 2. sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Essien fagnar marki sínu í fyrri hálfleik á móti Man. City.
Michael Essien fagnar marki sínu í fyrri hálfleik á móti Man. City. Mynd/AFP

Chelsea er komið aftur í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á Manchester City á heimavelli í gær. Það var Michael Essien sem skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Eftir leikinn er Chelsea komið upp fyrir Liverpool í 2. sætið á betri markatölu en bæði lið eru nú fjórum stigum á eftir toppliði Manchester United.

Chelsea hefur þar með unnuð fyrstu fjóra deildarleiki sína undir stjórn Hollendingsins Guus Hiddink en þeir hafa allir unnist með einu marki.

Michael Essien skoraði eina mark leiksins á 17. mínútu en þetta var fyrsta mark hans á tímabilinu. Frank Lampard gaf á hann boltann í skyndisókn eftir að hafa verið fljótur að taka aukaspyrnu. Essien skaut boltanum yfir Shay Given í marki City.

Chelsea var mun betri aðilinn í leiknum og áttu að skora miklu fleiri mörk en þrátt fyrir frábær kafla í leiknum náðu heimamenn ekki að breyta yfirburðum sínum í fleiri mörk.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×