Enski boltinn

Grétar Rafn segir nýja samninginn vera sanngjarnan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson er fastamaður í liði Bolton.
Grétar Rafn Steinsson er fastamaður í liði Bolton. Mynd/AFP

Grétar Rafn Steinsson er búinn að gera nýja fjögurra og hálfs árs samning við enska úrvalsdeildarliðið Bolton en þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Grétar Rafn sagði í samtali við Hans Steinar Bjarnason að hann væri ánægður með samninginn.

„Þetta er fínn samningur. Maður er kominn á þann aldur að maður verður að fara að tryggja sig. Maður er búinn að harka lengi í þessu og þetta er sanngjarn samningur," sagði Grétar Rafn í viðtali við Hans Steinar á Stöð 2.

„Ég er bara búinn að missa einn leik úr á einu og hálfu ári og ég tel að það gangi ágætlega. Ég spila í hverri viku í sterkustu deild í heimi þannig að ég get ekki kvartað," segir Grétar rafn aðspurður um gengið hjá Bolton.

Hans Steinar spurði Grétar hvort hann sæi það í spilunum að spila fyrir stærra félag. „Ef ég fengi tækifæri til að komast lengra og til stærra félags þá myndi ég íhuga það.

Í augnablikinu er ég bara að einbeita mér að spila fyrir Bolton. Ég hef alveg bullandi trú á sjálfum mér og mínum hæfileikum og ég tel að ég gæti spilað í stórum liðum," sagði Grétar.

Hann er ánægður með þróun mála á sínum ferli. „Ég er að fylgja þeirri leið sem ég valdi þegar ég var yngri og það hefur allt gengið upp. Ég fór fyrst til Sviss og síðan til Hollands. Liðið sem vildi fá mig þaðan var Bolton og ég lít bara björtum augum á fram á veginn," sagði Grétar Rafn í viðtali við Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttum Stöðvar 2 í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×