Innlent

Hægt að panta tíma fyrir bólusetningu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landlæknir. Mynd/ GVA.
Landlæknir. Mynd/ GVA.
Heilsugæslustöðvar landsins taka frá og með deginum í dag við tímapöntunum frá sjúklingum með tilgreinda „undirliggjandi sjúkdóma" og frá þunguðum konum vegna bólusetningar við svokallaðri svínaflensu.

Byrjað verður að bólusetja þá sem þetta á við mánudaginn 2. nóvember 2009 og gert er ráð fyrir að það taki um fjórar vikur að bólusetja alla í þessum hópum - á sjötta tug þúsunda landsmanna.

Á nokkrum heilsugæslustöðvum verður samt unnt að hefja þessa bólusetningu fyrir lok október, það er að segja á svæðum þar sem lokið er að bólusetja starfsmenn í heilbrigðisþjónustu og fólk í svokölluðum öryggishópum og lykilstörfum sem eru lögregla, slökkvilið, aðgerðastjórnir almannavarna og fleira. Viðkomandi heilsugæslustöðvar kynna nánar hvernig staðið er að málum.

Í fréttatilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild segir að ætla megi að mikið álag verði á símakerfi heilsugæslunnar í dag og næstu daga. Fólk er því vinsamlegast beðið um að sýna biðlund og skilning á meðan þetta sérstaka ástand varir.

Gert er ráð fyrir því að læknar sjúklinga með undirliggjandi sjúkdóma hvetji þá til að láta bólusetja sig og afhendi þeim sérstakt staðfestingarblað sem framvísað er við bólusetninguna. Þá geta sjúklingar sem greindir hafa verið með sjúkdóma á listanum einnig pantað tíma í bólusetningu þó þeir hafi ekki fengið staðfestingarblöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×