Innlent

Vilja leikfrestun vegna svínaflensu

Arnar Björnsson skrifar

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur óskað eftir þvi við mótanefnd knattspyrnusambands Íslands að leik Grindavíkur og ÍBV á sunnudag verði frestað.

Ástæðan er sú að 10 leikmenn Grindavíkurliðsins liggja veikir og leikur grunur á að þeir séu með svínaflensu. Aðeins sex leikmenn sóttu æfingu í vikunni, þar á meðal báðir blökkumennirnir í liðinu og yngri leikmenn liðsins, sem sloppið hafa við flensuna skæðu.

Fyrir liggur að tveir leikmenn, Óli Stefán Flóventsson og Zoran Stamenic hafa verið með svínaflensu og sýni hafa verið tekin úr hinum leikmönnunum en það skýrist ekki fyrr en niðurstaða liggur fyrir úr sýnunum hvort um H1N1-veiruna er að ræða.

Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ segir mótanefndina ræða beiðni Grindvíkinga um frestun. Birkir segir að óskað verði eftir læknisvottorði en hann býst við því að beiðni af svipuðum toga eigi eftir að fjölga.

Grindvíkingar eiga að spila við ÍBV á sunnudag og frestaðan leik við Fram á miðvikudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×