Innlent

Telur lán Glitnis til barna vera lögbrot

Ólögráða barn fékk 24 milljóna króna lán hjá Glitni

Hæsta lánið sem barni var veitt fyrir kaupum í stofnfjáraukningu í Byr fyrir tveimur árum nam tuttugu og fjórum milljónum króna. Lögbrot segir umboðsmaður barna, mistök segir bankastjóri Íslandsbanka.

Glitnir fjármagnaði 30 milljarða stofnfjáraukningu í Byr haustið 2007. Að minnsta kosti 10 börn voru skrifuð fyrir lánum hjá Glitni, lægsta lánið var upp á tvær milljónir en hæsta lánið var 24 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá ÍSlandsbanka. Ekki hafa fengist upplýsingar um aldur barnsins sem skráð var fyrir því. Öll börnin voru meðal stofnfjáreigenda í Byr og áttu forkaupsrétt í stofnfjáraukningunni.

Heimildir herma að flest þeirra séu börn annarra stofnfjáreigenda í sparisjóðnum. Íslandsbanki hefur lýst því yfir að umrædd lán verði ekki innheimt. Margrét María Sigurðardóttir, Umboðsmaður barna, furðar sig á því hvernig þetta gat verið samþykkt.

„Í mínum huga er þetta hreint og beint lögbrot. Mér finnst þetta ámælisvert að hálfu bankans og foreldranna," segir Margrét María.

Fáeinir foreldrar báðu sýslumannsembættin í Reykjavík og Hafnarfirði um að samþykkja að kaup barna þeirra á stofnfé í Byr yrðu fjármögnuð með lánsfé. Ekkert erindanna var samþykkt. Samt sem áður virðast foreldrar hafa farið gegn áliti sýslumanns. Samkvæmt lögræðislögum þarf samþykki yfirlögráðanda að liggja fyrir um slíka gerninga.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanki, segir marga bera ábyrgð í þessu máli. Foreldrar og starfsmenn Glitnis. „Já ég myndi segja að þetta væru mistök og við hörmum þetta. Við erum búin að ógilda þessa gjörninga af því að við sjáum að þarna var ekki staðið rétt að málum," segir Birna.




Tengdar fréttir

Ætla ekki að innheimta ofurlán hjá börnum

Dæmi eru um að Glitnir hafi veitt börnum há lán til stofnfjárkaupa í Byr sparisjóði. Tólf ára barn fékk slíkt lán upp á sex milljónir króna. Tugir stofnfjáreigenda undirbúa málsókn á hendur Íslandsbanka vegna lánanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×