Enski boltinn

Adebayor: Fabregas næstur til að yfirgefa Arsenal

Ómar Þorgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor.
Emmanuel Adebayor. Nordic photos/AFP

Framherjinn Emmanuel Adebayor hjá Manchester City hefur skotið föstum skotum á fyrrum liðsfélaga sína í Arsenal og stuðningsmenn félagsins í breskum fjölmiðlum undanfarið.

Í nýlegu viðtali við Daily Mirror telur Adebayor næsta víst að fyrirliðinn Cesc Fabregas muni yfirgefa herbúðir Lundúnafélagsins, sér í lagi ef félagið nái ekki að vinna sér þátttökurétt í Meistaradeildina á næsta tímabili.

„Ég held að leikmenn eins og Fabregas muni pottþétt líta í kringum sig ef Arsenal nær ekki Meistaradeildarsæti á þessu tímabili. Ég er annars bara að einbeita mér að Manchester City og er því ekkert að velta þessu fyrir mér," sagði Adebayor og vandaði stuðningsmönnum Arsenal ekki kveðjurnar.

„Fótbolti snýst um meira en bara að sparka í bolta og tækla en sumt fólk skilur það ekki. Það er mjög mikilvægt að gott samband myndist á milli leikmanna og stuðningsmanna. Þegar það vantar geta hlutirnir ekki gengið upp. Maður þarf að finna fyrir ást stuðningsmanna og þannig líður mér hjá City núna," sagði Adebayor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×