Innlent

Flest svínaflensutilfelli greinast í ungum börnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Langflest svínaflensutilfelli hérlendis, undanfarna daga og vikur, greinast hjá börnum á aldrinum 0-9 ára. Þetta er marktæk breyting frá því í júlí og ágúst, þegar flestir sem veiktust voru á aldrinum 15-30 ára, Þetta kemur fram í gögnum sem Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir hjá embætti sóttvarnalæknis, hefur tekið saman. Í tilkynningu frá Sóttvarnarlækni kemur hins vegar fram að veikindatilfellum í aldurshópnum 15-30 ára er hins vegar að fækka.

Tölur frá veirufræðideild Landspítala og fjarvistaskráning grunnskólanemenda í Mentor sýna sömuleiðis þessa fjölgun tilfella hjá börnum. Fjarvistum nemenda í grunnskólum landsins fjölgaði mjög í október.

Á reglubundnum símafundi fulltrúa almannavarna og heilbrigðiskerfisins í morgun komu fram ákveðnar vísbendingar um að inflúensufaraldurinn hefði mögulega náð hámarki á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og víðar, samkvæmt tilkynningu frá Sóttvarnarlækni. Annars staðar á landsbyggðinni er ástandið sagt svipað og var í vikunni þar á undan en á stöku stað er faraldurinn hins vegar í sókn, til dæmis á Húsavík. Starfsmenn heilsugæslustöðva sjá víða glögg merki um að hlutfallslega fleiri börn veikist nú en áður.

Á Landspítala voru í morgun fjörtíu og þrír sjúklingar með inflúensuna, þar af ellefu á gjörgæsludeild. Átta voru lagðir inn vegna veikinnar en enginn var útskrifaður. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri eru þrír inflúensusjúklingar þessa stundina, enginn þeirra á gjörgæsludeild.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×