Innlent

Neitar að vera á upptökunum

Andri Ólafsson skrifar

Aðalmeðferð í máli Ríkissaksóknara gegn Gunnar Viðari Árnasyni hófst í héraðsdómi Reykjaness í morgun. Gunnar er ákærður fyrir að hafa staðið fyrir og skipulagt smygl á sex kílóum af amfetamíni sem send voru til landsins með hraðsendingu.

Málið snýst um hraðsendingu sem kom hingað til lands í apríl frá Hollandi. Sendingin innihélt um sex kíló af amfetamíni sem lögreglu haldlagði en það er Vesturbæingur á þrítugsaldri, Gunnar Viðar Árnason, sem er grunaður um að hafa ætlað að koma í sölu hér á landi. Gunnar neitar þessu staðfastlega og í héraðsdómi reykjaness í morgun var hann spurður út alls kyns sönnunargögn sem fulltrúi ríkissaksóknara segir að sanni tengsl hans við málið.

Þau sönnunargögn eru að mestu fengin úr hljóðrituðum og hleruðum samtölum við Hollendinga sem taldir eru tengjast málinu og eiga að hafa sent umrædd efni til landsins.

Vandamál saksóknara er að Gunnar neitar að vera sá sem heyrist tala á umræddum upptökum. Ákæruvaldið hefur hins vegar lagt fram nokkur sönnunargöng sem benda til annars.

Tekist var á um þetta í morgun en hlé var gert á réttarhöldunum klukkan 11. Þeim verður framhaldið klukkan eitt en Gunnar Viðar Árnason gæti átt von meira en fjögurra ára fangelsi verði hann fundinn sekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×