Enski boltinn

Keane er þriðji dýrasti leikmaður sögunnar

Robbie Keane hefur kostað 73 milljónir punda samanlagt á ferlinum
Robbie Keane hefur kostað 73 milljónir punda samanlagt á ferlinum NordicPhotos/GettyImages

Robbie Keane er kominn upp fyrir Hernan Crespo á lista dýrustu leikmanna sögunnar þegar tekið er mið af því hve há upphæð hefur verið borguð fyrir þá samanlagt á ferlinum.

Daily Mail tekur í dag saman lista yfir þá leikmenn sem keyptir hafa verið fyrir mest fé yfir ferilinn og er Keane nú kominn upp fyrir framherjann Hernan Crespo sem áður lék m.a. með Chelsea.

Það er eftir sem áður franski framherjinn Nicolas Anelka sem trjónir á toppi listans, en fyrir hann hafa samtals verið greiddar 84,8 milljónir punda ef marka má samantekt Daily Mail.

Anelka var fyrst keyptur til Arsenal frá PSG fyrir 500 þúsund pund en liðið græddi tæpar 22 milljónir punda á honum þegar það seldi hann til Real Madrid nokkru síðar. Hann hefur síðan verið á mála hjá PSG, Man City, Fenerbahce, Bolton og nú síðast Chelsea.

Næstur kemur argentínski miðjumaðurinn Juan Sebastian Veron sem hóf feril sinn hjá Boca Juniors en var keyptur þaðan til Sampdoria á Ítalíu. Þar í landi lék hann síðar með Parma og Lazio áður en hann var keyptur fyrir 28 milljónir punda til Man Utd og lék síðar með Chelsea. Alls hafa rúmar 76 milljónir punda skipt um hendur í þessum félagaskiptum kappans.

Robbie Keane er nú kominn í þriðja sæti listans og hefur kostað 73 milljónir punda í heildina skv Daily Mail. Hann var ungur keyptur til Coventry frá Wolves fyrir 6 milljónir punda en fór þaðan til Ítalíu þar sem Inter borgaði 13 milljónir punda fyrir hann. Þaðan fór hann aftur til Englands þar sem hann hefur spilað með Leeds, Tottenham og Liverpool.

Argentínumaðurinn Hernan Crespo hóf ferilinn hjá River Plate en var keyptur til Parma á ítalíu fyrir 2 milljónir punda. Þaðan var hann keyptur til Lazio á metfé, 35,5 milljónir punda. Frá Lazio fór hann til Inter og var loks keyptur til Chelsea þar sem hann var leystur undan samningi í fyrra. Hann er nú leikmaður Inter og er eini maðurinn í sögu Meistaradeildarinnar sem skorað hefur mark með fimm liðum í keppninni. Alls hefur Crespo kostað tæpa 71 milljón punda á ferlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×