Innlent

Tók hlé frá Icesave til að spila í Austurstræti

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Árni tekur lagið fyrir hressa miðbæjargesti.
Árni tekur lagið fyrir hressa miðbæjargesti.

„Ég gekk bara beint úr ræðustól og út í Austurstræti," segir þingmaðurinn Árni Johnsen, en það brá eflaust mörgum gestum miðbæjarins í brún þegar þeir sáu Árna munda gítarinn fyrir framan verslun 10-11 í gærkvöld.

Árni tók sér stutt hlé frá umræðum um Icesave í þinginu til að taka nokkur lög og koma sér  og öðrum í þjóðhátíðargírinn. Komið hafði verið upp tjaldi og útilegubúnaði á litlum grasbala fyrir utan verslunina. Ástæðan ku vera sú að forsala aðgöngumiða á þjóðhátíð Vestmannaeyja 2009 hófst í gær í verslunum 10-11.

„Þetta var mjög skemmtilegt," segir þingmaðurinn um tónleikana.

Aðspurður hvort Árni ætli að leggja götuspil fyrir sig og taka dúett með Austurstrætishetjunni JoJo um helgina segir hann svo ekki vera.

„Nei, um helgina er ég á goslokahátíð. Austurstræti í gær og Skvísusund á laugardaginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×