Innlent

Stóra kerrumálið upplýst

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo stórtæka kerruþjófa fyrr í vikunni. Um er að ræða karl á fimmtugsaldri og konu á fertugsaldri en málið komst upp þegar þau stálu tveimur kerrum á höfuðborgarsvæðinu.

Kerrurnar voru auglýstar til sölu á Netinu og það kom lögreglunni á sporið. Frekari rannsókn hefur leitt í ljós að fólkið hefur stolið fjölmörgum kerrum síðustu mánuði en það virðist hafa farið í ránsferðir víða og tekið vel á annan tug kerra ófrjálsri hendi. Kerrurnar voru síðan auglýstar til sölu, ýmist í dagblöðum eða á Netinu.

Vegna þessa ítrekar lögreglan að hún hvetur fólk til að hafa samband þegar þýfi er annars vegar. Ennfremur er minnt á ábyrgð þess, þegar svo ber undir, sem kaupir þýfi. Í 264. gr. almennra hegningarlaga er meðal annars kveðið á um eftirfarandi:

Hver sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 4 árum. Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×