Innlent

Litháarnir tengjast allir komu stúlkunnar

SKIPULÖGÐ GLÆPASTARFSEMI Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi. Þar á meðal eru pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis. Þetta kom fram á blaðamannafundi í gær. Á myndinni eru, frá vinstri: Jóhannes Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Alda Hrönn Jóhannsdótttir, staðgengill lögreglustjóra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og Arnar Jensson, tengslafulltrúi hjá Europol. fréttablaðið/gva
SKIPULÖGÐ GLÆPASTARFSEMI Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi. Þar á meðal eru pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis. Þetta kom fram á blaðamannafundi í gær. Á myndinni eru, frá vinstri: Jóhannes Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Alda Hrönn Jóhannsdótttir, staðgengill lögreglustjóra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og Arnar Jensson, tengslafulltrúi hjá Europol. fréttablaðið/gva

Litháarnir sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna meints mansalsmáls á Suðurnesjum tengjast allir komu nítján ára litháískrar stúlku hingað til lands fyrr í mánuðinum. Þrír Íslendingar sem sitja einnig í gæslu tengjast allir Litháunum, að hluta til í gegnum atvinnustarfsemi, en einnig með öðrum hætti sem lögregla rannsakar nú. Mansal, tryggingasvik, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, skjalafals og peningaþvætti eru til rannsóknar hjá lögreglunni vegna málsins. Lögreglan rannsakar einnig hvort um skipulegt mansal sé að ræða hér á landi.

Þetta kom fram á fundi Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum, með blaðamönnum. Fundinn sat einnig Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og tengslafulltrúi hjá Europol.

Fram kom hjá lögreglustjóranum að lögreglan útilokaði ekki að fleiri þolendur mansals væru hér á landi. Þá útilokaði hún ekki heldur frekari handtökur eða húsleitir.

Arnar sagði að mansal hefði að undanförnu verið að færast ofar á lista Europol sem ógn sem stafaði af skipulagðri glæpastarfsemi í Evrópu.

„Í dag er mansal talið vera næstmesta ógnin,“ sagði hann. „Eiturlyf eru í fyrsta sæti, mansal í öðru sæti. Þetta er gert á grundvelli hættumats sem Evrópusambandið gerir einu sinni á ári í samvinnu við öll aðildarlöndin og þau lönd sem starfa með Europol.“

Arnar sagði að stofnaður hefði verið sérstakur vinnuhópur um mansal hjá Europol, þar sem meðal annars væru sérfræðingar í málaflokknum svo og greiningarsérfræðingar. Hugmyndin væri að Ísland tengdist fljótlega þessum vinnuhópi og gerðist þar með fullgildur aðili að evrópsku samstarfi á sviði löggæslu um mansalsmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×