Innlent

Enginn eyddi meira en 300 þúsund

Helmingur þeirra frambjóðenda til Alþingis, sem ekki höfðu skilað inn fjárhagsupplýsingum um framboð sitt til Ríkisendurskoðunar á miðvikudag, var úr VG, eða 18 af 36.

Greint var frá því í blaðinu í gær að þessir frambjóðendur brjóta lög um fjármál stjórnmálasamtaka, og brotin eiga að geta kostað sex ára fangelsi.

Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG skýrir skussahátt frambjóðendanna með því að í forvali flokksins hafi verið óhemju mikil þátttaka, og að sáralítill kostnaður hafi verið við framboðin.

„Við vorum með 103 í forvali sem eru jafnmargir og buðu sig fram í hinum flokkunum. Svo fór enginn yfir 300 þúsund krónur í kostnað, þar sem það var blátt auglýsingabann í forvalinu," segir hún. Samkvæmt lögum er þeim engu að síður skylt að greina frá því, að kostnaðurinn hafi verið þessi.

Drífa segist hafa boðist til að senda senda Ríkisendurskoðun yfirlýsingu um þetta fyrir hönd alla frambjóðendanna en stofnunin hafi viljað fá yfirlýsingu frá hverjum og einum, skiljanlega, segir Drífa.

Ekki einungis Ríkisendurskoðun hafi ýtt á eftir því við frambjóðendurna að skila inn upplýsingunum, heldur einnig skrifstofa flokksins.

„Þannig að þetta er bara á þeirra ábyrgð," segir Drífa Snædal.

Þess skal getið að í tilkynningu Ríkisendurskoðunar var nafn Fidu Abu Libdeh á lista yfir frambjóðendur í forvali VG, en hún tók ekki þátt í því. Skrifstofu VG varð á að setja Fidu á listann. Skussarnir voru því ekki 37, eins og sagt var í gær. - kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×