Innlent

Skráning í svínaflensubólusetningu hefst 16. nóvember

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir ásamt Víði Reynissyni frá almannavörnum. Mynd/ Vilhelm.
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir ásamt Víði Reynissyni frá almannavörnum. Mynd/ Vilhelm.
Landsmenn allir geta pantað tíma á heilsugæslustöðvum fyrir bólusetningu gegn H1N! inflúensu eða svokallaðri svínaflensu frá og með mánudeginum 16. nóvember. Viku síðar, mánudaginn 23. nóvember, verður byrjað að bólusetja þá sem fyrstir skráðu sig.

Í tilkynningu frá Sóttvarnarlækni segir að vonir hafi staðið til þess að unnt yrði að hefja almenna bólusetningu fyrr. Hins vegar hafi komið fram í morgun, á símafundi sóttvarnalæknis með sóttvarnalæknum, lögreglustjórum og fulltrúum heilbrigðisstofnana og almannavarnadeildar um allt land, að borist hefðu óvæntar fregnir um að næsta sending bóluefnis yrði minni og bærist einhverjum dögum síðar til landsins en gert hafði verið ráð fyrir.

„Alls hafa verið bólusettir um 30.000 manns hérlendis og áfram verður haldið af fullum krafti að bólusetja sjúklinga í skilgreindum forgangshópum með því bóluefni sem til er og með bóluefni sem væntanlegt er næstu tvær vikurnar. Starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar hafa vissar áhyggjur af því að sjúklingar í skilgreindum forgangshópum og vanfærar konur skili sér ekki eins vel til bólusetningar og æskilegt væri, sjálfra þeirra vegna og samfélagsins," segir í tilkynningu frá Sóttvarnarlækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×