Innlent

Dreifðist með kartöflusalsa

kaupþing Um 250 manns sýktust af noro-veirunni.
kaupþing Um 250 manns sýktust af noro-veirunni.

Noro-veiran sem herjað hefur á starfsfólk Kaupþings banka að undanförnu breiddist út með kartöflusalsa, auk þess að smitast á milli manna, að sögn Óskars Ísfeld Sigurðssonar, forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Ekki er vitað hvort veiran barst inn í bankann með matvælum eða fólki.

Óskar segir að rannsókninni sé ekki fulllokið en sennilega fáist aldrei úr því skorið hvernig veiran hafi komist í bankann. Noro-veiran stingi sér alltaf öðru hvoru niður í samfélaginu.

Um 250 starfsmenn Kaupþings hafa veikst, en sýkingin er nú í rénun, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Þá hafa borist spurnir af því að einhverjir fjölskyldumeðlimir starfsmanna hafi einnig veikst.

Noro-veira veldur iðrakveisu með uppköstum og niðurgangi. Hún er bráðsmitandi og berst á milli manna ýmist beint með snertingu eða óbeint með mat og drykk. Fundahöld í höfuðstöðvum Kaupþings gerðu það til dæmis að verkum að starfsmenn útibúa á Hellu og í Borgarnesi veiktust einnig.

Óskar segir starfsfólk bankans hafa staðið sig afar vel varðandi varúðarreglur til að rjúfa smitleiðir og koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×