Innlent

Fíkniefnamarkaðurinn afar ábatasamur

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.
„Fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi er mjög ábatasamur. Hér á landi er að finna fólk sem auðgast hefur gríðarlega á innflutningi og sölu fíkniefna. Umsvif erlendra hópa, einkum frá Litháen, hafa einnig verið áberandi," sagði Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, í ræðu sem hann flutti á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í gær.

Umræðuefni málþingsins var „Er skipulögð glæpastarfsemi raunveruleg ógn á Íslandi?". Haraldur sagði það vera niðurstöðu sína að þessari spurningu bæri að svara játandi. Á síðustu árum hefði orðið algjör grundvallarbreyting á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Hún væri skipulagðri en áður auk þess nýir aðilar létu nú til sín taka á þessum vettvangi.

Haraldur sagði skipulagða glæpastarfsemi vera raunveruleg ógn. „Skipulögð glæpastarfsemi er raunveruleiki sem stjórnvöld á Íslandi og almenningur allur verður að horfast í augu við; þetta er veruleiki sem kallar á viðbrögð af margvíslegum toga og síðast en ekki síst er hér um að ræða þróun sem sjálfsagt og mikilvægt er að upplýsa fólkið í landinu um," sagði Haraldur.

Ríkislögreglustjóri fjallaði einnig í ræðu sinni um um greiningardeild ríkislögreglustjóra, alþjóðavæðingu skipulagðrar glæpastarfsemi, mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á sviði löggæslunnar og áhrif efnahagshrunsins á Íslandi.

„Mikilvægi alþjóðasamvinnu á sviði löggæslu fer vaxandi með degi hverjum. Þátttaka í slíku samstarfi krefst sérþekkingar, hún krefst mannafla og, já, hún kostar peninga. Ætli Íslendingar sér að takast á við þann vaxandi vanda sem skipulögð glæpastarfsemi hefur í för með sér verður það aldrei gert án traustrar og víðtækrar samvinnu við erlendar löggæslustofnanir. Tal um annað er í besta falli til marks um þekkingarskort í því versta birtingarmynd sjálfsblekkingar," sagði Haraldur.

Ræðuna er hægt að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×