Íslenski boltinn

Sara varla meira með á mótinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sara Björk í leik með Breiðabliki í sumar.
Sara Björk í leik með Breiðabliki í sumar. Mynd/Rósa
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari Íslands, á varla von á því að Sara Björk Gunnarsdóttir verði meira með á Algarve-mótinu í Portúgal.

Sara meiddist í leik gærdagsins gegn Bandaríkjunum sem Ísland tapaði naumlega, 1-0. „Sara fékk spark í ökklan og missteig sig í leiðinni. Það liggur við að ökklinn hafi farið í 90 gráðu beygju. Hún er nú á hækjum og verður varla meira með á mótinu. Það gæti verið möguleiki á því hún verði með í síðasta leiknum á mótinu en það er lítill möguleiki."

Sif Atladóttir meiddist líka í leiknum en meiðslin voru ekki eins alvarleg.

„Hún var ekki með á æfingu í dag og er bólgin í hnénu," sagði Sigurður Ragnar.

Katrín Ómarsdóttir kom inn á sem varamaður fyrir Söru Björk í leiknum og er einnig ekki algerlega heil heilsu.

„Það er smá liðþófavandamál hjá henni og þarf að koma betur í ljós hvort hún verði með á mánudaginn."

Þá mætir Ísland danska liðinu í lokaleik riðilsins.

„Okkur dugir jafntefli til að tryggja okkur annað sæti riðilsins og þá spilum við um þriðja sætið við annað hvort Svía eða Þjóðverja. Við ætlum okkur að komast í þann leik enda væntanlega um hörkuleik að ræða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×