Erlent

Bandarískir bankamenn flykkjast í meðferð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Það er auðvitað ekki bara starfsfólk banka sem hér segir frá heldur bandarískra fjármálafyrirtækja almennt. Margir úr þessum geira eru komnir út í horn eftir að hinu títtnefnda góðæri lauk með hvelli í fyrra og þá er oft stutt í flöskuna.

Áfengi er ekki beinlínis nýtt fyrirbæri á Wall Street og öðrum fjármálamiðstöðvum. Hjól viðskiptalífsins hafa lengi vel verið smurð með göróttum drykkjum samhliða alls kyns viðskiptatengdum kvöldmáltíðum en nú lítur út fyrir að síðasta kvöldmáltíðin hafi verið snædd. Í bili að minnsta kosti.

Framkvæmdastjóri í Connecticut segir ekkert hafa verið gert fyrir geðheilsu fólks í fjármálageiranum þegar spilaborgin féll. Engin áfallahjálp eða fundir með stuðningshópum. Þetta ásamt öðru gerir það að verkum að meðferðardeild Silver Hill-sjúkrahússins í Connecticut er að fyllast af fólki úr fjármálalífinu sem sumt hvert hefur varla litið upp úr glasinu eftir að ósköpin dundu yfir.

Margir ganga til sálfræðings, ýmist samhliða áfengismeðferð eða eingöngu. Að sögn yfirlæknis hjá Silver Hill er einn hópur stærri en aðrir á svæðinu. Fyrrverandi framkvæmdastjórar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×