Innlent

Fylla 2,5 milljónir lifrardósa

Hrein og falleg lifur fellur til þegar eldisþorski er slátrað og er gott hráefni til niðursuðu. fréttablaðið/vilhelm
Hrein og falleg lifur fellur til þegar eldisþorski er slátrað og er gott hráefni til niðursuðu. fréttablaðið/vilhelm
Niðursuðuverksmiðja Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Súðavík verður rekin á fullum afköstum í vetur og er gert ráð fyrir að framleiddar verði 2,5 milljónir dósa af niðursoðinni fisk­lifur.

Eins og fram kemur á fréttavefnum bb.is fer haustvertíðin, sem hófst 1. september síðastliðinn, vel af stað. „Við verðum að vinna tvo daga í viku fram í enda nóvember en svo með fulla starfsemi til 1. júní,“ segir Kristinn Kristjánsson, vinnslustjóri hjá HG. Hann segir vertíðina leggjast vel í starfsfólk verksmiðjunnar, en fimm starfsmenn vinna hjá verksmiðjunni um þessar mundir. „Við reiknum með ekki minna magni en í fyrra, eða 2,5 milljónum dósa,“ segir Kristinn. Þess má geta að slegið var framleiðslumet á síðasta ári.

Hráefnið hefur komið að langstærstum hluta úr þorskeldi fyrirtækisins í Álftafirði og Seyðisfirði og af ísfisktogaranum Páli Pálssyni ÍS, auk þess sem hráefnis er aflað á mörkuðum og víðar af Vestfjörðum. „Við notum lifur hvar sem við komum höndum yfir hana, við erum til dæmis í sambandi við menn á Patreksfirði og Grindavík til að verða okkur úti um meira hráefni,“ segir Kristinn. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×