Íslenski boltinn

Ásmundur: Þetta er karaktersigur

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis. Mynd/Daníel

„Áttu ekki skilið það sem þú færð? Þú leggur þig fram og færð það sem þú átt skilið," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, sposkur á svip eftir 3-2 sigur sinna manna á Grindavík fyrr í kvöld.

Ásmundur gerði nokkrar hrókeringar í vörninni frá síðasta leik og voru Fjölnismenn nokkuð opnir framan af. „Fyrri hálfleikur var mjög opinn og við þurftum að gera allt of margar hrókeringar í sjálfu sér fyrir leikinn, en ég tel að það hafi skilað sér að lokum. Okkur tókst að þétta þetta og vinna okkur inn í leikinn eftir að hafa lent undir," segir Ásmundur.

Fjölnismenn lentu í tvígang undir í leiknum en náðu að koma til baka og hirða öll stigin þrjú. „Þetta er karaktersigur."

Grindvíkingar óðu hreinlega í færum í leiknum og þurfti Þórður Ingason oft að taka á honum stóra sínum í marki Fjölnismanna. „Hann er að standa sig mjög vel og við treystum á að hann geri það áfram. „

Grindvíkingar vildu meina að dómgæslan hafi hallað verulega á þá í leiknum. Ásmundur er ekki sammála því.

„Nei ég vil meina að það hafi verið jafnt á báða bóga. Þannig er það samt oft þegar þú tapar, þá tekurðu frekar eftir því að það sé dæmt á móti þér. Við höfum tekið eftir því í síðustu tveimur leikjum," sagði hann og hló.

Ásmundur tók sem dæmi atvik í fyrri hálfleik þegar Zoran Stamenic handlék knöttinn að því er virtist innan vítateigs. Þorvaldur Árnason mat þó svo að hann hefði verið utan teigs og dæmdi aukaspyrnu. „Mér fannst hann vera fyrir innan teig en dómarinn tók ákvörðunina og verður að standa við hana."

Þó Fjölnismenn hafi verið nokkuð heppnir segir Ásmundur: „Þú vinnur fyrir þeirri heppni sem þú færð. Við þurfum að byggja á þessu og þétta og laga það sem þarf að laga."




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×