Íslenski boltinn

Magnús Gylfason spáir í spilin fyrir leiki kvöldsins

Fjölnismenn eru án stiga í deildinni eftir töp gegn KR og Val á útivelli
Fjölnismenn eru án stiga í deildinni eftir töp gegn KR og Val á útivelli

Þriðja umferðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu klárast í kvöld með fjórum leikjum. Vísir fékk sérfræðinginn Magnús Gylfason til að spá í spilin fyrir leiki kvöldsins.

Leikir kvöldsins eru fyrir margar sakir áhugaverðir. Forvitnilegt verður að sjá hvernig Breiðablik og Fylki tekst að fylgja eftir sigrum í fyrstu tveimur leikjum sínum og þá verður mikið undir í Grafarvogi þar sem stigalaus lið Fjölnis og Grindavíkur leiða saman hesta sína.

Magnús Gylfason spáir því að hart verði barist á öllum vígstöðvum í kvöld.

Fjölnir-Grindavík kl. 19:15

"Hvorugu liðinu hefur tekist að ná sér í stig til þessa og þessi leikur er að mínu viti nokkuð spurningamerki. Ég ætla að spá því að þetta verði 1-1 jafntefli. Liðin eiga eflaust eftir að fara varlega inn í þennan leik. Fjölnismenn eru með heimavöllinn en mér finnst Grindavíkurliðið eiga meira inni. Ég hef mikla tilfinningu fyrir því að þetta verði jafntefli."

Fram-Fylkir kl. 19:15

"Þetta er annar hörkuleikur. Ég ætla að spá Fram 1-0 sigri og að Fylkismenn komi aðeins niður á jörðina eftir góða byrjun. Þetta verður mjög jafn og spennandi leikur eins og líklega allir leikirnir í kvöld."

Keflavík-Valur kl. 19:15

"Þessi viðureign fór 5-3 í fyrra og var einn skemmtilegasti leikur sumarsins. Ég á nú ekki von á að verði eins mörg mörk í kvöld en ég held að Keflavík vinni þennan leik 1-0. Þeir unnu FH heima og eru með góða stemmingu með sér á heimavelli."

Breiðablik-FH kl. 20:00 (beint á Stöð 2 Sport)

"Leikir þessara liða hafa alltaf verið mjög skemmtilegir og spennandi. Ég held samt að FH vinni þennan leik. Blikarnir hafa byrjað mótið vel, en FH vinnur þetta 2-0."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×