Innlent

Kanna hæfi starfsmanna gömlu bankanna sem enn starfa í bönkum

Fjármálaeftirlitið skoðar nú hæfi ákveðinna starfsmanna gömlu bankanna sem enn eru við störf í bönkunum og hvort þeir tengist málum sem eru til rannsóknar vegna bankahrunsins. Þá er hæfi allra lykilstjórnenda og stjórna allra fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga og lífeyrissjóða til endurskoðunar.

Í lok árs 2005 tók Fjármálaeftirlitið upp sérstakt mat á hæfi nýrra framkvæmdastjóra, við veitingu nýrra starfsleyfa og við breytingar á þegar veittum starfsleyfum. Eftir hrun íslenska fjármálakerfisins varð krafan um hæfi stjórnenda ríkari.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Fjármálaeftirlitið tekið hæfismat allra lykilstjórnenda og stjórna allra fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga og lífeyrissjóða til endurskoðunar. Þá mun hæfi ákveðinna lykilstarfsmanna gömlu bankanna sem enn eru við störf í nýju bönkunum einnig vera til skoðunar. Enginn mun þó hafa verið metinn vanhæfur en gert er ráð fyrir að þessari endurskoðun ljúki eftir nokkrar vikur. Horft er til faglegs hæfis viðkomandi, þ.e. að menntun, starfsreynsla og starfsferill sé með þeim hætti að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. Þá er einnig horft til hvort að starfsmennirnir tengist málum sem eru til rannsóknar vegna bankahrunsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×