Lífið

Vígði danska tónleikahöll

Dísa söng með danska tónlistarmanninum Mads Mouritz og skáldkonunni Hørslev í nýju höllinni.
Dísa söng með danska tónlistarmanninum Mads Mouritz og skáldkonunni Hørslev í nýju höllinni.

„Þetta er æðislegt hús," segir söngkonan Bryndís Jakobsdóttir, eða Dísa, sem tók nýverið þátt í vígslu nýrrar tónleikahallar danska ríkisútvarpsins í Kaupmannahöfn. Söng hún fyrir framan um 1.500 gesti í 45 mínútur ásamt danska tónlistarmanninum Mads Mouritz og skáldkonunni Hørslev. Var þetta fyrsta tónlistaratriðið á dagskrá og því má segja að Dísa hafi vígt þessa glæsilegu höll með hljómfagurri rödd sinni.

„Ég rétt náði út af sviðinu því ég skalf svo í hnjánum. Þetta var rosalega skemmtilegt og það er líka gaman að gera önnur verkefni en bara mitt," segir Dísa og á þar við samstarfið við Mads. „Hann er að gera nýja plötu og bað mig um að syngja með sér."

Höllin tekur 1.800 manns í sæti og hönnuður var franski arkitektinn Jean Nouvel. Í henni er að finna glæsilegt hollenskt orgel með sex hundruð pípum auk þess sem sætin eiga að laga sig að líkamanum og þykja sérlega þægileg. Kostuðu herlegheitin þrjá milljarða danskra króna, eða um 60 milljarða.

Dísa flutti til Danmerkur síðasta haust þar sem hún hefur einbeitt sér að lagasmíðum. „Ég hef verið að semja mikið með fólki og tók þátt í verkefni þar sem fimm manns voru saman í hóp. Svo spiluðum við á þremur stöðum í Danmörku," segir hún. „Svo er ég að æfa mig að semja og aðallega hlusta á nýja tónlist."

Þrátt fyrir að hafa það ágætt í Danmörku saknar hún þess að geta ekki verið heima á Íslandi. „Mér finnst leiðinlegt að ég sé ekkert heima á meðan þessar hörmungar eru og að geta ekkert gert hér. En maður fer með bænir," segir hún.

Dísa gaf í maí í fyrra út sína fyrstu plötu sem hlaut mjög góðar viðtökur gagnrýnenda. Spurð hvort ný plata sé á leiðinni segir hún að það verði bara að koma í ljós. „Ég er á fullu að æfa mig að semja. Ef ég verð svo heppin að lög koma þá auðvitað tek ég það upp og gef út."

Hún hefur einnig sungið á nokkrum tónlistarhátíðum að undanförnu, þar á meðal á Eurosonic í Hollandi, og hefur alls staðar fengið mjög góð viðbrögð. Eru allir sammála um að hún eigi framtíðina fyrir sér í tónlistarbransanum.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.