Innlent

Sjóðir nálgast sömu stærð og fyrir hrun

Arnar Sigurmundsson.
Arnar Sigurmundsson.
Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nálgast það að vera sú sama og hún var fyrir hrun. Batinn frá október 2008 er metinn af Seðlabanka Íslands á 181 milljarð króna en eignarýrnun sjóðanna við hrunið var metin 217 milljarðar króna eftir hrunið.

Nýtt yfirlit Seðlabanka Íslands á eignastöðu lífeyrissjóðanna sýnir að hrein eign sjóðanna í september var 1.735 milljarðar króna en var í sama mánuði 2008 1.772 milljarðar. Strax eftir hrun, í októbermánuði 2008, var eign sjóðanna metin 1.554 milljarðar.

Gögn Seðlabankans benda því til þess að bankahrunið hafi snert íslensku sjóðina minna en svartsýnustu menn óttuðust. Niðurstaðan hjá lífeyrissjóðum víða annars staðar í heiminum var verri, þó að taka verði tillit til ólíkra reikniaðferða. Talið er að lífeyrissjóðir aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar hafi séð á eftir fimmtungi eigna sinna frá byrjun árs 2008 til októberloka það ár.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það rétt að stærð sjóðanna nálgist að vera sú sama í krónum talið og hún var fyrir hrun. Hann setur þó þann fyrirvara að höggið í hruninu hafi verið þungt og tölfræði Seðlabankans um krónueign segi ekki alla söguna. „Það er hins vegar rétt að við nálgumst aftur átján hundruð milljarða markið. Stór hluti eigna sjóðanna hefur haldið áfram að skila góðri ávöxtun og það er meira borgað inn í sjóðina en greitt er út úr þeim. Það er mjög ánægjulegt að við séum að ná sömu stöðu í krónum talið og fyrir ári."

Uppgjöri hrunsins í reikningum lífeyrissjóðanna er ekki lokið og nokkur óvissa ríkir því enn um endanlegt mat á eignum þeirra. Stærsta höggið var tap í hlutabréfum innanlands en á móti hafa sjóðirnir hagnast á erlendum eignum sem byggðar hafa verið upp á löngum tíma.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×