Erlent

Vikið úr starfi vegna falinnar myndavélar

Breskum vísindakennara, sem myndaði nemendur úr launsátri vegna heimildamyndar sem hún vann að um afbrotahegðun, hefur verið bannað að kenna næstu tólf mánuðina.

Kennarinn sem heitir Alex Dolan sagði að henni væri brugðið yfir að hafa verið fundin sek um óásættanlegt athæfi í starfi. Hún sagði að hún væri einungis að vekja máls á mikilvægu máli sem snerti allan almenning. Eftirlitsaðilar úrskurðuðu hins vegar að Dolan hefið brotið traust við nemendur sína og misnotað aðstöðu sína. Hún tók upp myndskeið með falinni myndavél í fjórum skólum í London og Leeds árið 2005.

Í úrskurðinum kom fram að þær áleitnu spurningar sem koma fram í myndinni gætu ekki réttlætt að myndirnar væru teknar með falinni myndavél. Dolan sagðist hins vegar vera fullviss um að hún hefið komið heiðarlega fram og með hagsmuni heildarinnar í fyrirrúmi. Í yfirlýsingu sem birtist á Channel 4 sjónvarpsstöðinni sagðist Dolan standa við ákvörðun sína um að gera heimildarmyndina þrátt fyrir úrskurðinn. „Þetta er sorgardagur fyrir rannsóknarblaðamennsku," sagði Dolan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×