Innlent

Árás á lögregluna er árás á þjóðfélagsskipan Íslendinga

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna

Árás á lögregluna í landinu er árás á þá þjóðfélagsskipan sem hér ríkir og ógn gegn almannaöryggi, að mati Landssambands lögreglumanna.

Landssambandið lýsir yfir áhyggjum sínum af auknu ofbeldi í garð lögreglumanna og segir að taka verði á slíkum málum af mikilli festu og að þeir sem uppvísir verði að slíkum árásum verði látnir sæta þungum refsingum.

Landssambandið segist í tilkynningu hafa bent á manneklu og fjárskort löggæslunnar í landinu. Í þeirri umræðu segist sambandið hafa lagt áherslu á að ef ekki verði tekið á þeim málum af festu gætu af hlotist alvarleg slys.

,,Landssamband lögreglumanna krefst þess að Alþingi Íslendinga taki þessi mál til umfjöllunar og setji fram stefnu í löggæslumálum þjóðarinnar. Að Alþingi Íslendinga ákveði það öryggisstig sem landsmenn eiga að búa við og ákveði þjónustustig lögreglu. Að Alþingi Íslendinga ákveði mannaflaþörf lögreglu og tryggi það að allir Íslendingar, án tillits til búsetu, búi við sömu þjónustu lögreglu. Að fjárveitingar til lögreglu verði ákvarðaðar á grunni þess öryggis- og þjónustustigs sem ákvarðað verði," segir í tilkynningu.

Þá gera landssambandið jafnframt þær kröfur að lögreglumönnum verði tafarlaust séð fyrir þeim varnarbúnaði sem þörf er á hverju sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×