Innlent

Fresta því að kaupa nýja slökkvibíla vegna kreppunnar

Jón Viðar Matthíasson er slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.
Jón Viðar Matthíasson er slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.
Stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins ákvað á fundi sínum fyrir helgi að hætta við fyrirhuguð kaup á fjórum slökkvibifreiðum og taka ákvörðun um þau síðar. Hugsanlegt er að kaupunum verði dreift yfir lengri tíma.

Stjórn slökkviliðsins, sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, hittist á föstudag. Þar voru fyrirhuguð slökkvibílakaup rædd. Ákveðið var að með tilliti til þeirrar stöðu sem upp væri komin yrði að endurskoða kaupin en þar var vísað til stöðu efnahagsmála og þrengri aðgangs að lánsfé. Samþykkti stjórnin því að hætta við kaupin og taka ákvörðun um framhaldið síðar.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir að til hafi staðið að kaupa bílana bæði til endurnýjunar á flotanum og vegna fjölgunar slökkvistöðva á höfuðborgarsvæðinu. Menn velti því nú fyrir hvort betra sé að kaupa bílana á lengri tíma í stað þess að kaupa þá alla í einu. Einn bíll með tilheyrandi búnaði kostar á bilinu 50-80 milljónir.

Aðspurður segir Jón Viðar að staðan á núverandi slökkvibílum höfuðborgarsvæðisins sé mjög góð en aðeins einn bíll sé að komast á aldur. Menn horfi því þess að nota bílana lengur og taki nýja bíla inn í fleiri skrefum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×