Innlent

Innbrot í tvær verslanir Zik Zak í nótt - myndband

Breki Logason skrifar

Brotist var inn í tvær verslanir Zik Zak tískuhúss í nótt og öll skiptimynt tekin. Að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur eiganda Zik Zak voru 20 þúsund krónur í hverjum kassa, en alls voru þrír búðarkassar spenntir upp og skemmdir. Hún varar verslunareigendur við að hafa skiptimynt í búðarkössum sínum.

„Um hálf tólf leytið í gærkvöld var brotist inn í verslun okkar í Mörkinni og síðan um fimm í nótt var farið inn í verslun okkar í Hamraborg," segir Berglind en hurðirnar á verslunum voru brotnar upp.

Berglind sem samtals rekur 8 Zik Zak verslanir segir að einu sinni áður hafi hún lent í svipuðu, þá var brotist inn í verslunina í Hamraborg.

„Ég vil líka vara verslunareigendur við að vera með skiptimynt í kössunum. Frekar að taka hana með sér heim og skilja kassana eftir opna. Það er nefnilega erfitt að fá nýjar skúffur í kassana," segir Berglind sem keypti síðustu skúffurnar í landinu í morgun.

Hún segir einnig að framvegis verði engin skiptimynt skilin eftir í búðarkössum Zik Zak.

Í verslunum Berglindar er þjófavarnarkerfi frá Securitas og öryggismyndavélar. Allt kom þó fyrir ekki og sluppu þjófarnir af vettvagni með þýfið. 

Hægt er að horfa á upptökur af innbrotunum með þessari frétt en greinilegt er að þjófarnir vissu alveg hvað þeir voru að gera. Gengu hreint til verks og voru fljótir að láta sig hverfa.

Berglind biður fólk að hafa samband við sig hjá Zik Zak ef það telur sig vita hverjir voru á ferðinni í verslunum Zik Zak í nótt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×