Enski boltinn

Björgólfur og West Ham hafa mánuð til stefnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Guðmundsson, til hægri.
Björgólfur Guðmundsson, til hægri. Nordic Photos / Getty Images
Breska götublaðið News of the World heldur því fram í dag að Björgólfur Guðmundsson hafi einn mánuð til að selja West Ham áður en félagið verði sett í greiðslustöðvun.

Þetta hefur blaðið eftir heimildamönnum sínum sem segja að fall Landsbankans hafi gert það að verkum að staða félagsins sé slæm.

Ásgeir Friðgeirsson, varaformaður West Ham, sagði þó í viðtali við BBC í vikunni að Björgólfur hafði engan hug á að selja félagið og að margar fjárfestingar hans væru enn góðar og gildar.

West Ham er sagt 100 milljóna punda virði en yfirvofandi sekt vegna lögsóknar Sheffield United gæti teygt sig upp í 50 milljónir punda, að sögn blaðsins. Sektarupphæðin verður ákveðin í janúar næstkomandi.

Fjársterkir aðilar munu hafa áhuga á að kaupa West Ham en bíða þess nú að félagið falli í verði.

„Enginn veit hvað er að gerast nema að allt er á hvolfi hjá félaginu," sagði heimildamaður blaðsins.

„Leikmenn velta því fyrir sér hvort að laun þeirra séu tryggð og Gianfranco Zola veit að hann þarf að selja leikmenn í janúar til þess að kaupa aðra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×