Erlent

Rússar vilja lögfesta eignarhald sitt á Norðurpólnum

Óli Tynes skrifar
Á síðasta ári plantaði rússneskur kafbátur fána landsins á hafsbotninn undir norðurpólsísnum.
Á síðasta ári plantaði rússneskur kafbátur fána landsins á hafsbotninn undir norðurpólsísnum.

Forseti Rússlands vill færa eignarhald Rússa á Norðurskautinu í lög.

Interfax fréttastofan hefur eftir Dmitry Medvedev á fundi rússneska öryggisráðsins að það sé skylda þeirra við komandi kynslóðir að afmarka með lögum það svæði sem þeir gera tilkall til.

Á síðasta ári kafaði rússneskur kafbátur undir ísinn á Norðurpólnum og plantaði þar rússneskum fána til að undirstrika tilkall landsins til þessa heimshluta.

Rússar telja að neðansjávarhryggur sem liggur frá Síberíu til hafsbotnsins undir pólnum gefi þeim eignarhald yfir mestöllu Norðurskautinu.

Samkvæmt alþjóðalögum eiga þau lönd sem liggja að Norðurskautinu 200 mílna efnahagslögsögu frá ströndum sínum. Það eru fimm lönd; Kanada, Rússland, Bandaríkin, Noregur og Danmörk.

Þessi lönd hafa hinsvegar frest fram til maí á næsta ári til að leggja fram frekari kröfur.

Talið er að gríðarleg auðævi sé að finna á hafsbotni þarna og eftir því sem ísinn á Norðurskautinu minnkar verður auðveldara að hefja þar námugröft og olíuvinnslu.

Það er því ólíklegt að hin ríkin fjögur fallist á að Rússar eigi allt klabbið.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×