Erlent

Truflaður trúboði og dýraníðingur til höfuðs Obama

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mannvitsbrekkurnar Daniel Coward og Paul Schlesselman. Coward vann ötult trúboðastarf í Bells í Tennessee áður en hann gerðist nýnasisti og foreldrar Schlesselmans óttuðust um öryggi dýra nálægt honum.
Mannvitsbrekkurnar Daniel Coward og Paul Schlesselman. Coward vann ötult trúboðastarf í Bells í Tennessee áður en hann gerðist nýnasisti og foreldrar Schlesselmans óttuðust um öryggi dýra nálægt honum. MYND/AFP/Getty Images

Ungu öfgamennirnir sem ráðgerðu að skjóta Barack Obama til bana klæddir hvítum kjólfötum með pípuhatta í stíl reyndust vera tilfinningalega truflaðir einfarar sem kynntust á Netinu.

Þeir félagar Daniel Coward og Paul Schlesselman sem lýstu því á svo litríkan hátt fyrir bandarískum alríkisdómara hvernig þeir hygðust myrða á annað hundrað manns og Barack Obama í lokin reyndust vera truflaðir vandræðaunglingar frá Tennessee og Arkansas sem samferðarmenn lýsa sem skaðlausum furðufuglum.

Til dæmis leyfðu foreldrar Schlesselmans honum ekki að þiggja að gjöf eðlu sem fjölskylduvinur hugðist gefa honum sem gæludýr þar sem drengurinn myndi að öllum líkindum skaða dýrið. Coward félagi hans komst í fréttirnar í heimabæ sínum, Bells, fyrir sprengjuhótun í gagnfræðaskóla sínum sem reyndist innihaldslaus.

Byssur og bænahald er helsta áhugamál íbúa í Bells en þar býr ákaflega kirkjurækið fólk sem stundar skotveiði af krafti. Daniel Coward var þó aldrei sagður hafa fundið sig í veiðimennskunni en hins vegar hafi hann rækt tíðir af þeim mun meiri ákefð og varla farið út úr kirkjunni. Meðal annars lagði hann stund á trúboðastarf áður en hann vendaði sínu kvæði í kross og gerðist nýnasisti en honum þótti sjónarmiðum þess hóps ekki gert nægilega hátt undir höfði í Bells.

Amma Cowards sagði hann vera góðan dreng sem henni þætti ekki líklegur til að myrða Barack Obama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×